Færðu tveimur fjölskyldum góða gjöf

Sjúkraflutningamenn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands heimsóttu í dag tvær barnafjölskyldur og færðu þeim peningagjöf sem er ágóði af árlegri dagatalssölu sjúkraflutningamannanna.

Fyrst lá leiðin í Hveragerði þar sem bankað var uppá hjá Viktoríu Sól Jónsdóttur og foreldrum hennar, Jóni Inga Jónssyni og Dagmar Björk Heimisdóttur. Viktoría Sól kom í heiminn þann 22. maí síðastliðinn og þriggja vikna gömul greindist hún með alvarlegan þríþættan hjartagalla.

Þegar hún var eins mánaðar gömul fór hún í sinn fyrsta opna hjartauppskurð í Svíþjóð en núna fyrir helgina kom litla fjölskyldan heim frá Svíþjóð úr fjórðu aðgerðinni á aðeins fimm mánuðum. Nú var settur nýr gangráður í Viktoríu Sól en í dag er hún með gervihjartaloku, gangráð og á lyfjum. Seinna meir þarf hún að fara að minnsta kosti tvisvar til Svíþjóðar til að láta skipta um hjartalokuna og gangráðinn.

Viktoría Sól stendur sig eins og hetja er brosmild, jákvæð og lífsglöð og ákveðin ung stúlka. Að sögn foreldra hennar hafa þau fundið fyrir miklum stuðningi í Hveragerði á síðustu mánuðum og vilja koma á framfæri kæru þakklæti fyrir það.

Eftir heimsóknina í Hveragerði heimsóttu sjúkraflutningamennirnir fjölskyldu Önnu Báru Magnúsdóttur, átta ára stúlku á Selfossi, dóttur Magnúsar Gíslasonar og Kristínar Traustadóttur. Anna Bára er með alvarlega fjórlömun, þroskahömlun og flogaveiki. Orsök þessa er meðfæddur galli á miðtaugakerfi og flokkast það undir CP heilalömun.

Anna Bára býr við litla getu til viljastýrðra hreyfinga og þarf fulla aðstoð vegna allra daglegra athafna sinna. Vegna þessa þarf hún fjölþætt hjálpartæki í heimili og skóla en hún er í 3. bekk í Sunnulækjarskóla á Selfossi. Anna Bára hefur gaman af tónlist og er mikil félagsvera. Einnig þykir henni gaman að ferðast með fjölskyldunni.

Báðar fjölskyldurnar fengu rúmlega 250 þúsund króna peningagjöf frá sjúkraflutningamönnunum en auk þess glaðning frá Íslandsbanka, ostakörfu frá MS og gjafabréf fyrir flugeldum frá Hjálparsveit skáta í Hveragerði.

„Þetta er alltaf jafn skemmtilegur dagur fyrir okkur og ánægjulegt að geta lagt hönd á plóg hjá þessum fjölskyldum,“ sagði Stefán Pétursson, formaður félags sjúkraflutningamanna í samtali við sunnlenska.is. „Lykillinn að þessu er auðvitað salan á dagatalinu sem gengur alltaf jafn vel og ber að þakka fyrir það. Eins viljum við þakka Íslandsbanka, MS og Hjálparsveitinni í Hveragerði en allir þessir aðilar voru meira en tilbúnir að leggja okkur lið,“ sagði Stefán.

anna_bara_magnusd241212gk_752664258.jpg
Sjúkraflutningamennirnir Stefán og Einar ásamt Önnu Báru, foreldrum hennar og bræðrum, Gísla Rúnari, Trausta Elvari og Hjalta Heiðari. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinMatthías gaf sig fram á Ásólfsstöðum
Næsta greinMatthías stal rifflinum úr sumarbústað