„Sjúklega spennt að vera komin áfram“

Anna Hansen, söngkona frá Leirubakka í Landssveit, komst í kvöld í 32 manna úrslit í danska tónlistarþættinum Voice.

Alls fóru um 2.000 einstaklingar í prufu fyrir þættina og voru 84 valdir til að taka þátt í sjálfri keppinni. Í þættinum sem var sýndur á TV2 í Danmörku í kvöld voru svo 32 einstaklingar valdir til að halda áfram.

„Ástæðan fyrir að ég fór í prufu var að ég fékk símtal frá konu sem vinnur við þættina. Hún hafði séð myndband af mér á YouTube og líkaði það sem hún heyrði, svo hún hringdi í mig og bauð mér að koma í lokað forval. Ég sagðist ekki vita hvort þetta væri fyrir mig, en hún bað mig að skoða málið og myndi hringja aftur í mig. Hún hringdi svo aftur viku síðar og ég sló til,“ segir Anna sem var þá nýkomin úr stuttu tónleikaferðalagi um Danmörku þar sem hún söng fyrir 5.000-6.000 manns á hverju kvöldi.

„Ég var ekkert stressuð að syngja fyrir þennan fjölda á tónleikaferðalaginu en mér finnst svona prufur alveg svakalega taugatrekkjandi. Ég var mjög stressuð og fannst ekki líklegt að þau myndu hringja aftur. En viti menn, þau vildu endilega fá mig áfram í næstu prufu, sem voru svokallaðar blindprufur. Þar snúa þjálfararnir baki í söngvarann sem stendur á sviðinu og snúa sér við ef þeim líkar það sem þau heyra. Ég fór í prufuna og tveir þjálfaranna sneru sér við, rapparinn Liam O’ Connor eða L.O.C. eins og hann kallar sig, og Lene Nystrøm söngkona úr Aqua. Hún endaði svo á því að draga sig í hlé aftur og ég fór í liðið hjá Liam,“ segir Anna sem lærði söng í Complete Vocal Institute í Danmörku og leggur nú stund á söngkennaranám við sama skóla.

Auk L.O.C. og Lene Nystrøm sjá Sharin Foo söngkona hljómsveitarinnar Raveonettes og popplistamaðurinn Xander um þjálfun keppenda. Hugmyndin að þáttunum kemur upphaflega frá Hollandi en þættirnir hafa verið framleiddir í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar.

„Ég er sjúklega spennt að vera komin áfram á næsta stig og kynnast öllu þessu fólki. Þetta er brjáluð upplifun. Þó svo að maður fari inn í þetta með hugarfarið að „bara prófa og sjá til hvernig fer“ þá langar manni sko ekki að detta út þegar maður er kominn áfram. Ég skil miklu betur allt þetta lið í The X-Factor og Idolinu núna. Þetta er fáránlega gaman,“ segir Anna en sigurvegarinn fær plötusamning hjá Universal í Danmörku svo að það er til mikils að vinna.

„Næsta stig er svokallað einvígi þar sem tveir og tveir úr sama liði keppa á móti hvorum öðrum. Sviðið er boxhringur og maður syngur dúett. Svo er það þjálfarinn sem veldur annan aðilann áfram og sendir helminginn heim. Fjórir úr hverju liði komast áfram í beina útsendingu þar sem þjóðin kýs,“ segir Anna sem hefur verið búsett í Danmörku síðastliðin fjögur ár.

„Voice leggur mikið upp úr því að halda hæfileikastandardinum háum og að keppendurnir séu betri en í The X-Factor. Þau senda engan áfram sem þeim finnst ekki valda verkefninu. Það eru engar opnar áheyrnarprufur í Voice, heldur bara lokaðar áheyrnaprufur þar sem sitja einstaklingar frá Universal útgáfunni, TV2, Nordisk Film og fleiri stöðum. Munurinn á þessu og The X-Factor er að það komast bara góðir söngvarar inn. Það er ekki verið að niðurlægja eða gera grín að neinum,“ segir Anna að lokum.

Myndband af frammistöðu Önnu í þættinum

Heimasíða þáttanna

Aðdáendasíða Önnu Hansen

Fyrri grein„Strax búin að ná einu markmiði“
Næsta greinRangæingar flengdir í lokaumferðinni