Einn alvarlega slasaður og tveir í fangageymslum

Karlmaður fékk alvarlega höfuðáverka þegar óskráður torfærujeppi valt við sumarhúsahverfi við Flúðir í nótt. Þrír voru í bílnum og voru hinir tveir handteknir þar sem ekki er ljóst hver ók bílnum en mennirnir eru grunaðir um ölvun.

Slysið var tilkynnt á fjórða tímanum í nótt.

Sá slasaði missti meðvitund en hann komst aftur til meðvitundar í sjúkrabílnum á leið á slysadeild í Reykjavík. Hann gengst nú undir aðgerð á Landspítalanum.

Svo virðist sem ökumaður bílsins hafi misst stjórn á honum í brekku með þeim afleiðingum að hann valt. Bíllinn var með sæti fyrir tvo en mennirnir voru þrír í bílnum.

Tveir sluppu ómeiddir en þeir voru handteknir þar sem þeir vildu ekki gefa upp hver ók bílnum eða tjá sig um málsatvik. Mennirnir eru grunaðir um ölvun. Þeir voru vistaðir í fangageymslum á Selfossi í nótt og verða yfirheyrðir í dag.

Fyrri greinKatrín tryggði Selfyssingum stig í uppbótartíma
Næsta greinKerlingadalsá lokuð í júlí