Sýningarbúnaðurinn ekki fullnægjandi

Sýningarbúnaður Sambíóanna á Selfossi fullnægir ekki nútímakröfum, sem gerir það að verkum að ekki er hægt að sýna allar nýjustu myndirnar í bíóinu.

„Stúdíóin erlendis eru hætt að útvega myndirnar á filmum nema í þeim fáu tilfellum að tryggt sé að kostnaðurinn við það standi undir sér,“ segir Hörður Valgarðsson hjá Sambíóunum í samtali við sunnlenska.is. Hörður segir að áður hafi filmurnar verið samnýttar, spilaðar í Reykjavík fyrst og síðan sendar út á land. Eftir að kvikmyndahúsin fóru að nota stafræna sýningartækni séu engar filmur sendar til landsins heldur koma myndirnar á hörðum diskum.

„Það vantar stafrænan sýningarbúnað í flest landsbyggðarbíóin en sá búnaður er einfaldlega of dýr til að hægt sé að réttlæta kaup á honum fyrir lítil bíó, “ segir Hörður og bætir því við að erlendis, meðal annars í Bretlandi, hafi þróunin verið sú að bæjarfélög hafi tekið þátt í þessum kostnaði.

Í nóvember 2010 funduðu forráðamenn Sambíóanna með sveitarfélaginu Árborg þar sem meðal annars farið var yfir þróun stafrænnar tækni í kvikmyndahúsum og mögulega rekstrarörðugleika minni bíóhúsa vegna þess. Árborg gat ekki aðstoðað Sambíóin í þessum efnum.

„Hendur sveitarfélaga eru almennt nokkuð bundnar þegar kemur að beinni rekstraraðstoð við einkafyrirtæki. Eigandi húsnæðisins sem bíóið er í hefur verið í fjárhagslegri endurskipulagningu í samstarfi við sveitarfélagið og væntanlega fer því ferli að ljúka,“ sagði Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar í samtali við sunnlenska.is.

Að sögn Harðar er verið að fara yfir rekstrarfyrirkomulagið í bíóinu á Selfossi og eru engar niðurstöður komnar í það mál. Sambíóin leigðu húsið með sýningarbúnaðinum sem nú er úreltur og standa yfir viðræður við eiganda hússins varðandi það.

Þess má geta að þann 25. júlí verður nýja Batman myndin frumsýnd í bíóinu á filmu. Að sögn Harðar er bíóið á Selfossi eina bíóið á landinu sem frumsýnir myndina á filmu og börðust Sambíómenn fyrir því að fá það samþykkt hjá framleiðendum myndarinnar.

Fyrri greinMalbikað á íþróttasvæðinu
Næsta greinSluppu lítið meidd úr bílveltu