Nýtt lag og myndband frá RetRoBot

Sunnlenska hljómsveitin RetRoBot hefur sent frá sér nýtt lag og myndband við það. Lagið heitir Electric Wizard og er skotheldur raf-slagari.

Hljómsveitina RetRoBot skipa þeir Daði Freyr Pétursson, Kristján Pálmi Ásmundsson, Gunnlaugur Bjarnason og Guðmundur Einar Vilbergsson.

Lagið og myndbandið er tekið upp á Stokkseyri en hljómsveitin hefur æfingaaðstöðu í ungmennahúsinu Pakkhúsinu á Selfossi.

RetRoBot varð til þegar Daði Freyr og Pálmi byrjuðu að spila saman síðasta sumar en undir lok síðasta árs bættust Gunnlaugur og Guðmundur Einar í hópinn og þá fékk RetRoBot þann hljóm sem sveitin hefur í dag.

„Við ætlum okkur að spila eins mikið og við getum þegar við erum búnir að æfa meira. Vonandi verðum við svolítið á ferðinni næsta sumar og stefnan er sett á næstu Músíktilraunir,“ sagði Daði Freyr í samtali við sunnlenska.is. „Auðvitað er ekki neitt annað í stöðunni heldur en að vinna þær og ná heimsyfirráðum í kjölfarið.“

Elecric Wizard er annað lag sveitarinnar. „Það fyrsta var gefið út áður en við höfðum nokkurn tíman hittst allir saman, það heitir Generation og var gefið út 11.11.11. Það var að mestu leyti gert í sumar áður en Gunnlaugur og Guðmundur slógust í hópinn, en þeir settu svo sitt tvist á það rétt áður en við gáfum það út,“ segir Daði Freyr.

Daði segir ævintýrið rétt að byrja og nýja lagið hefur fengið mjög góðar móttökur en á tæpri viku hefur lagið verið spilað rúmlega 2.100 sinnum á YouTube. Einnig er hægt að hala laginu niður frítt af www.retrobotmusic.bandcamp.com.

Fyrri greinSkuldahlutfall Árborgar fer lækkandi
Næsta greinVinna að heildarstefnu í umhverfismálum