Soffía Sigurðar: Alþýðuvit í hagstjórn

Maturinn á diskinn þinn kemur frá náttúrunni og fæst með vinnu. Þess vegna skal virða hvort tveggja, náttúruna og vinnuna.

Þessi einföldu sannindi, sem allt venjulegt fólk skilur, eru grundvöllur góðrar hagstjórnar. Það er þegar við missum sjónar á þessu grundvallaratriði og villumst í stærðfræðifimleikum víxlara, sem hagkerfi okkar fer fjandans til. Og það gerðist. Fjármálakerfi landsins hrundi, þar varð kerfishrun.

Kerfishrun er ekki vegna þess að við höfum ekki vandað okkur nógu vel. Þess vegna mega viðbrögðin við því ekki vera að sópa upp múrbrotum og steypumulningi, hræra það upp á ný, blása rykinu af gömlu teikningunni og byggja það sama upp aftur, – bara vanda sig betur næst. Nei, þegar kerfi hrynur er það vegna þess að byggingarefnið var rangt og teikningin vitlaus. Hér þurfa að koma til ný og önnur úrræði.

Auðveldara er að hafa skoðanir en úrræði, en úrræði þarf. Þess vegna var það að eftir Hrun fór ég að stúdera efnahagsmál og við það þurfti heldur betur að greina og blása hismið frá kjarnanum. Eftir stóð kjarninn sem ég hóf þennan pistil á.

Efnahagsmál verða höfuð viðfangsefni næstu ríkisstjórnar. Góð hagstjórn er forsenda þess að nokkuð annað á óskalistanum rætist. Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna að kenna bændum að búa, sjómönnum að fiska, rafvirkjum að tengja eða kennurum að skapa góða skóla. Sunnlendingar eru ekki hávaðasamt fólk, en þeir eru duglegt fólk sem kann til verka. Með heilbrigðu efnahagslífi ræður allt þetta fólk fram úr sínum málum.

Ég er að bjóða mig fram til Alþingis og að vera valin í þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Ég vel Samfylkinguna af því hún stendur fyrir gildi sem mér hugnast, jöfnuð, samábyrgð, umhyggju og frelsi og vegna þess að hún stundar þau vinnubrögð að leita úrræða.

Ég býð mig fram til Alþingis til að bæta hagstjórn og treysta efnahag lands okkar. Til þess að þá hafi sveitastjórnarmenn grunn undir bollaleggingum sínum um skóla, hjúkrunarheimili, reiðvegi og raflínur. Til þess að þá hafi bændur grunn undir fjölbreyttum búskap, sjómenn geti skipulagt fiskveiðar, raforkuframleiðendur samið um orkuverð, iðnrekendur lagt í nýjar fjárfestingar. Til þess að þú, lesandi góður, getir áformað að koma þér upp heimili án þess að verða skuldaþræll alla þína starfsæfi við að borga af 40 ára húsnæðisláni á glórulausum lánskjörum.

Þetta er hægt. Það er hægt að byggja réttlátt þjóðfélag á traustum efnahag. Hvernig? Ég skal ræða um það við þig fljótlega.

Soffía Sigurðardóttir,
gefur kost á sér í 3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

Fyrri greinBjörgvin opnar kosningaskrifstofu
Næsta greinBifreið kastaðist á ferðamann við árekstur